Friday, December 12, 2008

Heima !

Þá er ég kominn heim !

Ferðalagið gekk vel og það er flottur jólasnjór yfir öllu !

p.s. Ég er búinn að breyta í gamla símanúmerið mitt...
(+354) 868-0099



-Byrjum gleðina !

Tuesday, December 9, 2008

Tómlegt herbergi en spenningur í hjarta!



Á sunnudaginn tókum við, ég og John Venkiah, upp píanóverkið mitt ´Syndadansinn´. Það gekk vel, en tók samt lengri tíma en ég hafði áætlað... 3 tímar takk fyrir. Enda ekkert auðveldasta verkið til að spila, hann tók það samt í nefið miðað við að hann er ekki klassískur píanóleikar heldur Jazz-ari.

Um heimferð:
Flest komið ofan í tösku og síðasta vélin að þrífa síðustu leppana. Annað hvort er herbergið tómlegt eða bara snyrtilegt... ég er varla dómbær um það.

Mér líður skringilega... hlakka rosalega til að koma heim , en veit að ég á eftir að sakna stemmingarinnar hérna og allra sem ég hef kynnst!

Staffan lét mig hafa slóðina á blogið sitt svo ég gæti æft mig í sænskunni eftir að ég er kominn heim. Algert lágmark að reyna að halda því við sem ég hef lært hérna úti...

http://staffanwieslander.blogspot.com/

Sunday, December 7, 2008

4 dagar

Í dag eru 4 dagar þar til ég heim... Planið fyrir þennan tíma sem ég á eftir er svo hljóðandi:

  • Í dag: Skrifa ritgerðina, taka upp píanóverkið mitt kl.13-16.
  • Mánudag: Hreinskrifa ritgerðina, setja hana upp og senda hana til Íslands.
  • Þriðjudagur: Byrja að pakka niður, þrífa og semja jólalag fyrir skiptinema bandið.
  • Miðvikudagur: Klára að pakka niður, senda bækur og hljómborð með pósti, fá sér eftirmiðdags-steik með Johan, Magnus og Hilde, Jólafagnaður um kvöldið þar sem jólalagið verður vonandi flutt.
  • Fimmtudagur: Vakna kl.9 og fara út á flugvöll kl.10, fljúga heim kl.12, vera kominn til Keflavíkur kl.14:30 sirka!
Gott plan verð ég að segja ! Hlakka til að sjá ykkur öll...

-H

Tuesday, December 2, 2008

ENM tónleikar



Tónleikarnir búnir og gengu vel og létt stemming. Minnti frekar á opna æfingu en tónleika... hér eru tvær myndir frá skissernas museum. Það er listasafn samansett aðeins af skyssum eða uppköstum skilst mér... samt ótrúlega flott. Sú staðsetning hentaði einkar vel fyrir þessa tónleika, því við vorum jú að flytja: "...skissernas musik" eins og annar leiðbeinandi kúrsins orðaði það réttilega, eða "uppköst af tónverkum".

Peter Nordahl er að æfa sitt verk þarna fyrir framan mest alla hljómsveitina. Mjög skemmtileg samsetning af hljóðfærum og margar skemmtilegar útkomur litu dagsins ljós þennan dag...

Tónlistarsögu próf á morgun og ég er alveg útkeyrður eftir daginn en klukkan bara hálf níu. Ég ætla að þrauka til níu og fara svo í háttinn, vakna snemma og lesa punkta...

9 dagar í heimkomu !

Sunday, November 30, 2008

Draumur

Mig hefur dreymt mikið uppá síðkastið....

Í nótt dreymdi mig að ég gæti spilað á fiðlu... ekkert voðalega vel en nógu vel til að geta spilað einföld lög.

Ég var niðrí listaháskóla og í fiðlutíma með Grétu Salóme vinkonu minni og fiðluleikara. Kennarinn okkar sagði okkur að spila þennan dúett en ég ruglaðist nokkrum sinnum og afsakaði mig. Þær, kennarinn og Gréta, voru voða skilningsríkar. Skemmtilegur draumur...

Svo dreymdi mig í fyrrinótt að ég væri kominn heim á undan áætlun. Áður en prófið í tónlistarsögu væri og jólapartý-ið hjá skiptinemunum. Þegar ég áttaði mig á því að ég væri kominn heim of snemma greip mig panikk út af prófinu og sektarkennd út af partý-inu því þau færðu það til 10.des bara út af mér.

Þegar ég vaknaði tók það mig smá tíma að átta mig á því að þetta hefði bara verið draumur... svona er mannshugurinn merkilegt fyrirbæri...

Svo bara tónleikar eftir 6 og hálfan tíma. Eftir tvo tíma ætlum við Magnus (samnemandi minn sem ætlar að stjórna verkinu) að hitta hörpuleikarann hana Hörpu ...

... nei grín ... það hefði samt verið fyndið. Hún heitir Miriam og við ætlum að kíkja yfir partinn hennar fyrir tónleikana því hann er nokkuð slunginn.

-Seinna vinir !

Friday, November 28, 2008

Túnið



Hér gefur að líta og heyra fyrsta kaflan í ENM verkinu mínu (ensamble for new music) sem heitir einfaldlega "Túnið" eftir atriði í lokaverkefninu mínu. Martin á tenor básúnu og Elias á túbu.

Það sem gerir þetta skemmtilegt er að Martin er með svo kallaðan ´Loop Station´ pepal sér við hægri fót og með honum tekur hann upp fyrri hlutan af röddinni sinni á meðan túban er með sóló. Það er hljóðnemi á bak við nótna statífið sem hann spilar inní. Þegar röðin er komin að Martin að spila sóló þá ýtir hann á þar til gerðan takka á pedalnum og þá spilast fyrri hlutinn sem undirspil fyrir sólóið hans. Fyrra sóló-ið í túbunni er endurtekið og verður þá að millispili.

Sem sagt ... 3 raddir , en aðeins 2 hljóðfæraleikarar. Gaman að þessari tækni...

Eftir sóló-in koma 2 flautur, 3 klarinett, blokkflauta og harpa sem voru nú ekki með á þessari æfingu. Verkið verður flutt í fullri lengd á sunnudaginn í Skissernas museum hér í Lund... það verður gaman að sjá hvernig það kemur út.

-Áfram með gleðina...

Wednesday, November 26, 2008

Ritgerð

"Eftir forsöguna komum við til nútímans og sjáum Fróða (Elijah Wood) sitja við tré í heimalandi sínu, Héraði (Shire). Sá atburður er mikilvægur í tónlistinni því þá heyrum við fyrst það sem ég kalla ´gleðistefið´ með klarinettið í forgrunni. Án efa mest áberandi tilfinninga tvöföldunar stefið í allri myndinni og gott dæmi um ófrumleika. Lord of the rings fjallar um andstæður, um baráttu góðs og ills. Sauron og orkarnir hans öðru megin, Bilbo, Gandalf (Ian McKellen) og restin af föruneytinu hinumegin. Aðalstefið á móti gleðistefinu. Klisjuheitin í notkun gleðistefsins verða stundum svo mikil að manni langar helst til að hið illa sigri hið góða, að aðalstefið sigri gleðistefið. En af gömlum vana höldum við auðvitað með góðu gæjunum."

Örlítið brot úr ritgerðinni minni, texti sem ég var að vinna í um daginn... Greining á hringadróttinssögu nr.1

Gáfulegt?

-HR

Monday, November 24, 2008

Íslenskt menningarkvöld!





Daði heimsótti mig á laugardaginn. Við fórum á pöbb og ég sýndi honum helstu staðina í Lund. Á sunnudeginum fórum við svo í skiptinemaíbúðina í Malmö og elduðum við krakkana. Fyrsta hugmyndin var að hafa íslenska kjötsúpu en súpukjötið var svo dýrt þannig að við höfðum íslenska grænmetis súpu í staðinn, eða "hunter soup" ... Sú nafngift kom svona til:

Liina: "Helgi , tell us the tale of this food"

Helgi: "yes ... often me and my dad go fishing in the wilds and then we (or him) cook something similar... kind of a hunter soup"

Kais: "aw yeah ... manly hunter soup!!"

Allir: "hahaha..."

Hepnaðist nokkuð vel og allir (nema portúgalski/spænski strákurinn að því er virtist) sáttir. Með þessu höfðum við auðvitað Brennivín. Því var tekið furðulega vel, einstaka einstaklingur sem fékk sér jafnvel þrisvar í glasið... ég gruna finnsku stelpurnar.

18 dagar þar til ég kem heim... !

-Helgi

ps. svo lét ég slæðast með fallega vetrar mynd af dómkirkjunni og skemmtilega mynd af Jonatan, mér og Staffan þegar við vorum í stokkhólmi!

Saturday, November 22, 2008

SNJÓR !




Ég sagði í gær að það væri kominn snjór... ég var aðeins of fljótur á mér. Það hélt áfram að snjóa svo að segja allan daginn í gær í Lund á meðan ég var í Malmö. Þegar ég kom heim var svo að segja allt á kafi. Það var alveg svona ekta snjóbylur um 16 leytið þegar ég var á leiðinni úteftir til að hitta John og Johann á æfingu. Til samanburðar við myndina sem ég setti á færsluna í gær af garðinum hef ég sett aðra frá sama sjónarhorni, tekna í morgun, og aðra tekna í gærkvöldi. Þessi snjór kom alveg á réttum tíma því ég hafði verið að segja við sjálfan mig "það er ekki eins fallegt og það var þegar öll laufin eru fallin af trjánum". Svo kom Snorri blessaður og reddaði því á einu augabragði. Rosalega fallegt ... en ég get ekki lengur gengið í inniskónum mínum á milli húsana eins og áður...

NÚNA er kominn snjór...

Friday, November 21, 2008

Snjór á skáni
























Ekki bjóst ég við þessu. Ég vaknaði í morgun og þá var bara kominn smá snjór. Ekkert að viti, en nóg til að þekja garðborðið, garðstólana, þökin á bílunum og hálft þakið á húsinu. Ég frétti nú að það væri myndarlegur snjór heima... ég vona að hann verði ennþá þegar ég kem heim 11.des.

En nóg af masi ...

... áfram með ritgerðina ! Núna er ég að rífa í mig ´Lord of the rings: Fellowship of the Ring´.

Kíkið svo á þessa góðu grein hjá baggalúti

Tuesday, November 18, 2008

Jazzinn læknar

Nú er loksins að birta til í veikindum mínum. Hóstinn orðinn grynnri, úthaldið meira osfrv. Sem þýðir ekkert annað en það að nú get ég hætt að sofa út og byrjað að vakna snemma og einbeita mér almennilega.

Um daginn héldu nokkrir nemendur ´hádegisjazz´ tónleika í skólanum. Skemmtilegt uppbrot í daginn... (og bloggið)


Saturday, November 15, 2008

Hallå från Sverige - taka 2



Mest allt efnið tekið uppí partý-i haldið í skiptinema íbúðinni 8.nóv. Nema ég er heima hjá mér daginn eftir og Staffan og Jonatan eru niðrí skóla í electroakustik stúdíó-inu.

Friday, November 14, 2008

Älgen Hälge og básúnu sóló



Hérna úti má finna teiknimynda sögu um elg sem heitir Helgi. Ég er ekki frá því að það sé líka smá svipur með okkur. Minnir man pínu á looney toons... veiðimaður að elta elginn og elgurinn leikur á hann. Rétt eins og Kalli Kanína og hvað hann nú hét sem var alltaf að reyna að veiða Kalla.

Svo eru aðeins 27 dagar í að ég komi heim og nóg að gera í skólanum. Þessa dagana er ég að reyna að semja stykki sem byrjar á solo fyrir básúnu... það gengur ekki vel, en ég finn á mér að á morgun muni innblásturinn koma. Í dag fann ég nokkur áhugaverð básúnu video á youtube. Hér sjáið þið Christian Lindberg flytja verk eftir ("tón")listamanninn John Cage. Merkileg stúdía á básúnunni...



svo að segja allar mögulegar leiðir kannaðar til að skapa hljóð á básúnu. Annað verk sem hefur gert garðinn frægan eftir Cage: "4:33" þar sem píanóleikarinn kemur inn á sviðið og sest við píanóið en situr í þögn í nákvæmlega 4 mínútur og 33 sekúndur. Verkið er þá bara öll þau hljóð sem heyrast í áhorfendum. Þeas andadráttur, hósti, brak í stólum, umferðin fyrir utan o.s.frv. Gott að pæla aðeins í Cage til að víkka aðeins upplifun manns á tónlist.

Ég er nú ekki að leytast við að semja svona Cage básúnu verk , en það er gott að vita hvaða möguleika maður hefur :)

-HR

ps. ég ætla að setja nýjasta video blogið inn líklega á morgun...

Wednesday, November 12, 2008

Hallå från Sverige

Nýtt video blog hefur litið dagsins ljós.

hægt er að skoða það á facebook síðunni minni eða með því að smella á þennan link:

http://www.facebook.com/video/video.php?v=44338637993&saved


Áfram með gleðina !

ps. látið mig vita ef linkurinn virkar ekki...

Monday, November 10, 2008

HEIMFERÐ!

Það er rétt að minnast á það hér að ég er búinn að bóka ferð heim þann 11.desember! Ég lendi rúmlega kl.14 að íslenskum tíma. Við erum þá að tala um mánuð og einn dag í það að ég komi heim ! Miðað við hvernig rúmlega tveir og hálfur mánuður eru búnir að líða eins og að drekka vatn þá verður þessi eini mánuður sem eftir er ekkert mál! Hlakka til að koma heim !

Svo vil ég benda öllum á síðuna http://www.indefence.is

e-ð fyrir alla sanna íslendinga!

Ma & Pa 30.okt - 4.nóv




Mamma og pabbi komu í langþráða ferð til Lundar þann 30.nóv. Langar fallegar gönguferðir og góður matur einkenndu heimsóknina. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um það því ég þarf að fara að læra! Ég var búinn að einsetja mér það að komast í 5 gírinn í dag í náminu! Njótið bara myndanna og haust/vetrar dýrðarinnar!

ps. Í dag eða á morgun panta ég flugfarið heim ! :)

Wednesday, November 5, 2008

Vetur

Núna er kominn vetur á skáni. Maður getur ekki lengur labbað á stutterma bol útí líkamsræktarstöð. En þó það sé kalt , þá er líka ótrúlega falleg. Trén í fullum haust skrúða. Foreldrar fóru heim í gær eftir góða Helgar heimsókn. Meira um það í næsta blogi ( það er ljóst að maður verður að bloga meira, ég er að detta aftur úr hægt og rólega). Svo fer ég í seinni Stockholm ferðina mína á morgun. Ég og Staffan tökum saman lest um hádegi frá Malmö Central. Tilefnið er Stockholm international composers festival... allt í boði skólans. Fullt af tónleikum og vonandi stuði.

Strax á morgun set ég inn video blog sem ég bjó til áðan. Það tekur bara svo langan tíma að hlaðast upp að ég nenni ekki að gera það núna , en strax á morgun þegar ég vakna ;)

Thursday, October 30, 2008

Stockholm, 1. ferð




Sara kom til mín um kvöldið þann 23.okt. Ég sótti hana útá Malmö centralstation en kjáninn sem ég er sagði henni óvart að fara út af á einni stöð of snemma. Það var nú ekki alvarlegra en svo að hún hoppaði bara uppí næstu lest og var komin 15 mín seinna. Morguninn eftir höfðum við pantað bílaleigubíl á netinu hjá Avis vini okkar. Við skelltum okkur til þeirra kl.10 en kjáninn sem ég er gleymdi að taka með mér kreditkort, því það þarf greinilega alltaf þegar maður leigir sér bíl. En það hef ég aldrei gert áður í eigin persónu. Sem betur fer var Sara með sitt á sér þannig að það reddaðist, og herramaðurinn sem ég er lagði inná hana bara þegar við komum heim.

En ég var ekki bara kjáni í þessari ferð, fall er fararheill... ég stóð mig mjög vel það sem eftir var. Smurði meira að segja fullt af nesti fyrir okkur...

Þannig æxlaðist það að við lögðum af stað til Stockholm kl.11 þann 24.okt. Hrafnhildur og Torbjörn lánuðu okkur GPS tæki sem kom að góðum notum. Ferðin gekk vel þangað til við vorum nánast komin að Jynköping, EN ÞÁ BILAÐI BÍLLINN! Gat nú skeð. En við tókum þessu af þroska, hringdum strax í Avis sem hringdi strax í dráttarbíl sem hringdi svo aftur í Avis og læt senda nýjan bíl handa okkur. Eftir einn og hálfan tíma vorum við komin aftur á veginn og létum eins og ekkert hefði í skorist.

Eitt sem maður sér þegar maður keyrir um Svíþjóð... mikið af trjám. Hálfa leiðina sér maður ekkert útsýni fyrir öllum trjánum. En þegar maður kemur að vötnunum hjá Jynköping fer að "létta til" og maður getur dáðst að náttúrunni.

Við komum inní Stockholm þegar það var orðið dimmt, um kl.19:30. Og viltumst við eða hvað? Já , við viltumst. Það sem við klikkuðum á var að fylgja bara myndinni á GPS tækinu. Þetta er rosaleg borg með slaufum sem geta orðið alltað 3ja hæða. Götu netið er svo þykkt að það var varla hægt að sjá hvort maður ætti að beygja til vinstri eða hægri á skjánum. Eftir að hafa keyrt í tvo hringi benti Sara réttilega á það að við ættum frekar að fylgja götuheitunum. Það gerðum við og þá fórum við að rúlla í rétta átt.

Komum til Dúddu kl.20 eins og planað hefði verið. Dúdda er systir mömmu Söru og býr í Stockholm, bara svo þið vitið. Þar var okkur boðið í mat og svefn, sem við þáðum með þökkum.

Daginn eftir fórum við niðrá Drottningargötu í miðbænum og röltum hana þangað til við komum inná Gamla Stan eyjuna. Þar er elsti hluti borgarinnar og það var mælt með því við okkur að við færum þangað. Mjög fallegt, en þegar maður býr í Lund, þá sér maður svipuð hús nánast á hverjum degi. Frá Gamla Stan fórum við í bátsferð til Tívólísins og til baka, en tívólí-ið var lokað svo við fórum ekkert í það. Aðalega til þess gert að sjá borgina.

Fyrir þá sem ekki vita er Stockholmur byggður á árósum, þ.e.a.s. eyjum. Sem gefur borginni mjög sterkan svip og ég heillaðist alveg undir eins. Get varla beðið að fara aftur... það fer nú samt að styttast í það. Rolf kennarinn minn og allir tónsmíða nemendurnir fara á klassíska tónlistar hátíð þar í boði skólans 6.-8. nóv. Þá verður stuð !!

Saríanna frænka Söru (25 ára) hitti okkur seinni partinn og gat sýnt okkur aðeins um borgina og sagt okkur hluta af sögu hennar.

Við Sara ákváðum að vera ekkert að fara á djammið að þessu sinni, fórum heldur heim til Dúddu í Sushi og spjall. Sátum, borðuðum og spjölluðum allt kvöldið. Frá 19-24. Ótrúlega kósý og mjög mikilvægt fyrir mig að eiga svona stórar fjölskyldu máltíðir þar sem ég borða oftast einn hérna úti í herberginu mínu.

Talandi um fjölskyldur þá eru foreldrar mínir líklegast í loftinu núna á leiðinni í heimsókn. Ég tek á móti þeim útá Lund Central rúmlega 13. Alltaf gaman að fá heimsóknir !

Daginn eftir keyrðum við af stað heim. Við ætluðum að leggja af stað kl.9:30 en töfðumst í dýrindis morgunverði og kveðjum til rúmlega 10. Þegar við vorum rétt komin út fyrir borgina hringir Dúdda í okkur: "krakkar ég gleymdi að segja ykkur að það er kominn vetrartími núna". Sem þýðir einfaldlega það að við græddum einn klukkutíma og vorum því lögð af stað á hárréttum tíma! Svona erum við ótrúlega stundvís (og heppin).

Ferðin heim gekk hrakfallalaust fyrir sig nema Sara fékk pizzu í hádegismat sem henni fannst ekki góð :P

Áfram með gleðina!

p.s. ég ætla að setja inn fleiri myndir og kannski video þegar síminn minn nær að hlaða sig. Hleðslutækið hlýtur að koma í dag...

Tuesday, October 28, 2008

töf

Sæl öll sömul. Ég ætlaði að koma með rosalegt blog í dag... myndir, video og sögur... en svo varð síminn minn rafmagnslaus og þar eru nokkur video sem ég ætlaði að nota. Undir venjulegum kringumstæðum myndi ég bara hlaða hann, en ég gleymdi hleðslutækinu hjá Dúddu útí Stokkhólmi. Ekki er þó öll von úti því það er á leiðinni í póstinum og ætti að koma til mín á morgun... þá kemur roslega blogið :)

Wednesday, October 22, 2008

på väg til Stockholm!



Sara kemur á morgun í heimsókn nr.2. Við erum búin að taka frá bíl hjá Avis og ætlum að keyra til Stockholm snemma á föstudaginn. Ferðin tekur örugglega svona 6-7 tíma er mér sagt, en við fáum lánað GPS tæki hjá Hrafnhildi þannig að ég hef engar áhyggjur. Við gistum hjá frænku Söru í einu af úthverfunum. Minnir að Sara hafi sagt að gatan héti Hjartargata. Hún bara leiðréttir það ef svo er ekki ... Ég hlakka allavega óóótrúlega til og get varla beðið. Löngu kominn tími á að breyta aðeins til í rútínu hversdagsins. Það kemur líklega brjálað mynda og videoblog eftir helgi ! En þangað til...

... áfram með gleðina...

Monday, October 20, 2008

Video gláp


Núna er önnur yfirferð hafin. Í gær horfði ég aftur á Godfather og The Sea Hawk. Í dag er það The pianist og 8 mile... kannski fleiri. Í annarri yfirferð horfi ég á myndina og punkta hjá mér alla staði þar sem tónlist kemur fyrir og kannski smá punkt um það afhverju tónlistin sé þarna en ekki annars staðar. Í þriðju yfirferð þá hoppa ég bara beint á tónlistarstaðina og sé hvort það séu einhverjar leyndar tengingar á milli þeirra.

Sumir myndu segja að þetta væri nú frekar skemmtileg gerð af rannsóknarvinnu fyrir ritgerð. Bara horfa á bíómyndir. Jú jú ég get alveg tekið undir það, en þetta er líka mjöööög tímafrekt. Kostir og gallar við allt.

Þar sem ég er að skrifa um frumleika í nútíma kvikmyndatónlist , þá er næsta verkefni að finna einhverja mynd sem er yndislega ófrumleg þegar kemur að tónlistar framsetningu. Þá mynd ætla ég að hafa sem miðpunkt ritgerðarinnar... síðan flokka ég allar hinar myndirnar niður í flokka og tala um þær með hliðsjón af þessari yndislega ófrumlegu.

Áfram með gleðina...

p.s. svona í lokin verð ég að benda ykkur á merkilega grein sem rithöfundurinn Andri Snær skrifaði á vísir.is. Skyldulesning fyrir alla: "úr einu ruglinu í annað"

Friday, October 17, 2008

Folk musik

Það sem mér finnst áhugaverðast við MHM (musikhögskolan i malmö) er sú staðreynd að það sé hægt að vera á Folk musik braut. Þ.e.a.s. þjóðartónlistarbraut. Í LHÍ höfum við ekkert sem kemst nálægt þessu, nema þau séu búin að negla inn einhverjum nýjum kúrsum á meðan ég hef verið í burtu. Á miðvikudaginn tóku nokkrir Folk musik nemendur sig saman og héldu smá dansiball, bæði til að þau gætu æft sig og svo vantar alveg fleiri félagslega viðburði innan skólans finnst mér. Auðvitað skellti ég mér... tók nokkur spor... og einnig nokkur video... Söngvarinn í video-inu (sem ég því miður man ekki hvað heitir) kenndi mér nokkur spor og svo skelltum við Katrin (Belgía) okkur útí djúpu laugina og lærðum með því að byrja bara á því að bulla e-ð. Mjööög skemmtilegt.

Þetta snýst aðalega um að ganga í takt , snúa sér og dansfélaganum þegar maður er í stuði til þess og svo stappa niður af og til á þungu slagi. En ef maður er einn af þeim lengri komnu, þá getur maður tekið spor eins og þau gera í síðustu klippunni. Beygja sig niður á hnén eða slá saman hæl og lófa. Svo er það bara hugmyndaflugið...

Wednesday, October 15, 2008

Kemur aldrei vetur á Skáni?


Mér skilst að það komi aldrei vetur á skáni. Svo segir allavega hún Bryndís sem bauð okkur Jóni í óperuna um daginn. Hún lýsir sínum fyrsta "vetri" á skáni svona: "það var sumar, svo kom haust... svo kom haust... svo var haust... og svo kom vor!"

Ég gerði mér varla grein fyrir því hvað tímanum líður. Kominn svo að segja miður október... og á mánudaginn rölti ég í ræktina á bolnum. Glampandi sól. Ekki kannski heitt þannig séð , en alls ekki kalt heldur. Í dag er rigning og rok, en í gær þegar ég mætti í skólan var stemmingin mjög sumarleg. Margir sátu léttklæddir úti í hádegispásunni sinni, með bros á vör.

En núna verð ég að halda áfram að skrifa ritgerðina mína ... hún er loksins komin á skrið.

Áfram með gleðina!

Sunday, October 12, 2008

Tusse och Jag



Hér á bæ eru tveir kettir. Tusse og Sessie. Karin nefndi þá eftir persónum í sænskum barnaþætti. Fyrsta mánuðinn voru kettirnir ekki alveg sáttir með mig hérna. Könnuðust ekki við mig og hlupu hræddir í burtu þegar ég reyndi að nálgast þá. Sessie er eldri og virðist ráða ferðinni, leyfir Tusse varla að koma inní húsið nema bara til að borða. Þannig að Tusse sefur alltaf útí garði. Nýlega hinsvegar, höfum við Tusse orðið ágætis vinir. Ég bræddi hjarta hans með reyktri skinku. Núna hef ég loksins vingast við alla meðlimi hússins. Sessie er kannski aðeins þrjóskari en virðist vera búin að viðurkenna mig á heimilinu. Góður mælikvarði er hvort þeir leyfa manni að taka sig upp. Sessie kvæsir bara , en Tusse er orðinn afslappaðri...

Á föstudaginn fór ég í partý. Við krakkarnir ætluðum í international partý en svo var uppselt, þeir sem áttu miða fóru inn en við hin fórum annað. Ég komst að því að Lund háskólinn er einn sá stærsti í Evrópu þegar kemur að skiptinemum svo það var nóóóóg af útlendingum á svæðinu. Til að gefa ykkur einhverja hugmynd þá eru stofnaðir svona mentor hópar svo að skiptinemarnir kynnist innbyrðis. Til erum 40 hópar og í hverjum eru ca.30. Ég kynntist t.d. kínverskum strák að nafni Dong Yang. Hann var ótrúlega sleipur í ensku og mjög gaman að spjalla við hann og fræðast um fjarlæga menningarheima. Eftir að hafa verið úthýsað úr því festi fórum við Dong og fleiri í næsta nation hús. Nation eru einskonar nemendafélag og svoleiðis félög má finna útum allan bæ. Stórar byggingar þar sem nemendur lifa og djamma.

Fyrir utan húsið var rauður dregill og dyraverðir. Eftir að hafa þurft að tala dyravörðinn til (því við vorum ekki meðlimir í nation-inu, þýski strákurinn sá um það, Mikael?) komumst við loksins inn. Þessi staður minnti mun meira á næturklúbb en nemendafélag... tveir barir, fatahengi, pulsusala... bara allt :)

Hér er lítið video sem sýnir hvernig stemmingin er á leiðinni út á lífið. Venjan er sú að fara á hjóli sem mér fannst svona frekar fyndið, en meikar líka fullkomið sens. Lagið er "party song" með Blink 182, svona aðeins til að peppa upp annars atburðalaust video :P


p.s. Svar við spurningu Ernu frænku. Ritgerðin gengur allt í lagi, hún liggur samt í salti eins og er. Það eru verk sem þarf að æfa sem ég þarf að klára áður en ég helli mér 120% í hana :P

Thursday, October 9, 2008

Íslensk...?

Þegar maður aðhefst í stórborg eins og Malmö þá er það ekki fjarri að ópersónulegur tónn svífi yfir vötnum. Hundruðir þúsunda sem ana um göturnar í sínum erindagjörðum. Þetta er enginn Hvammstangi þar sem allir þekkja alla.

Í svona kringumstæðum gæti verið hæpin hugmynd að kynnast einhverju nýju fólki. Allir í vörn en varnarlausir inn við beinið.

Samt sem áður henti það mig um daginn...

Þar sem ég sat á Södervarn að bíða eftir 171 til Lund sest kona á bekkin við hliðiná mér, góð viðbót við félagsskapinn sem ég hafði fram að því. Þoglumæltur róni að tala um biblíuna á sænsku, mjög gaman. Við yrðum nú ekkert á hvort annað fyrr en eftir að hún hefur tekið upp síman og hringt eitt símtal. Hún hringir og er að reyna að ná sambandi við einhvern Sverri (sem ég veit núna að er yfirmaður hennar). Auðvitað gríp ég það á lofti og spyr hvort hún sé íslensk. Svo var ekki , ítölsk er hún og við tökum að snakka um hitt og þetta á leiðinni í bussinum. Í ljós kemur að við höfum nánast sama klassíska tónlistarsmekk og búum nálægt hvort öðru í Lund.

Svo sem ekkert merkileg saga í sjálfu sér og ég á örugglega aldrei eftir að rekast á hana aftur. Það er bara svo gaman af fólki og samskiptum...

Monday, October 6, 2008

Áfram með gleðina



Mikið sungið og hlegið á laugardaginn í íslendingapartý-inu. Ósköp venjuleg gleði annars og ekki frá miklu að segja. Langaði bara að deila með ykkur nokkrum góðum myndum sem Skúli tók. Við Olga gistum svo hjá Jóni og áttum alvöru Sunnudag. Vöknuðum kl.14, náðum í Kebab og horfðum svo á myndina Superbad... góð stemming það...

P.s.
Það má taka það fram að þessar tómu bjórdósir eru ekki allar eftir okkur. Mest var eftir partý sem var kvöldið áður í sömu íbúð. Flott mynd samt :)

P.s.2
Ég var bara að muna hvað mig dreymdi í nótt. Mig dreymdi að mér hefði áskotnast ókeypis flug til íslands og að ég hafi skroppið heim yfir helgina og hitt alla. Ég man sérstaklega eftir að hafa dreymt Gulla og Depil. Þeir tveir sem ég hef ekkert heyrt í, né séð, eftir að ég fór út. Ef þið sjáið þá , þá megið þið klappa þeim frá mér og segja þeim að drulla sér á msn :P

Áfram með gleðina !

Saturday, October 4, 2008

Svensk lektion/gjaldþrot skiptinemanna




Mér áskotnuðust 2 frímiðar á generalprufu Konunglegu Dönsku óperunnar á stykkinu "partenope" eftir George Frideric Handel. Ég og Jón skelltum okkur á fimmtudaginn. Þetta eru tæpir 4 tímar svo við ákváðum að láta okkur hverfa eftir annað hlé. Ekki því að stykkið væri ótrúlega leiðinlegt, heldur því við höfðum planað að hitta fólk á bar (hvar hafa dagar lífs þíns lit sínum glatað þegar börnin stinga af úr óperu til að fara á bar). Jón hafði kannski heldur ekki alveg eins mikla list á þessu og ég. Og ekkert nema gott um það að segja. Svo er næsta dönskuferð áætluð í kvöld. Daði ætlar að halda íslendinga partý ... löngu kominn tími á það segi ég.
Það verður samt líklega síðasta danmerkur ferðin í einhvern tíma , þar sem ég verð að fara að spara penginginn. Samhliða gjaldþroti bankanna og íslensku krónunnar kemur gjaldþrot skiptinemanna. Nú kostar allt nánast tvöfallt í DK það sem það kostaði fyrir stuttum tveimur vikum síðar. Sænska krónan er sem betur fer "bara" 16 íslenskar á meðan sú danska er 20. Nú hættir maður að fara út að borða í smá tíma og kaupir bara Euroshopper mat í kjörbúðinni.

Til að svara mömmu gellu, þá er hér lýsing á fyrsta sænskutímanum okkar.

Þetta er stór hópur, uþb 10-12 krakkar, og á mjög misjöfnu stigi í sínu sænskunámi. Gong frá Kína t.d. (já , hann heitir Gong :) ) er á algerum núll punkti á meðan Masa frá Japan og Peter frá Búlgaríu kunna smá. Veit ekki alveg með Fabíó frá Ítalíu (já, hann heitir Fabíó). En svo erum við hin , sem kunnum ágætan grunn. Þetta er erfiður hópur að kenna ég veit , en flestir af okkur sem kunna e-ð urðum fyrir smá vonbrigðum með tímann.

Eina sem við gerðum var að segja: "vad heter du" við hvort annað og læra aðeins um þjóðerni hvors annars. Þar sem að þetta eru tveir og hálfur tími ætlum við að biðja um að honum verði skipt í tvennt svo allir fái e-ð fyrir sinn snúð. Fyrri helmingurinn verði grunnatriði og seinni verði fyrir lengra komna. Og annar helmingurinn getur þá gert einhver verkefni á meðan hinn er að vinna með kennaranum.

Annars læri ég mest á því að tala bara við vini mína annaðhvort á msn eða í skólanum...

Wednesday, October 1, 2008

den vacraste stad i hela Sverige!









































Ja, Helgi bör i den vacraste stad i hela Sverige: Lund! (vacraste - fallegasta)

Það er ótrúlega upplífgandi að fá sér göngutúr um bæinn eftir að hafa verið að læra allan morguninn. Alltaf e-ð nýtt að sjá og byggingarnar auðvitað ævintýralegar.

Lét svo líka fylgja með mynd frá útskriftar tónleikum skólans. Hér er fiðlueinleikari að spila með Malmö symphonie. Og hún var að útskrifast með hvorki meira né minna en doktorsgráðu í fiðluleik. Enda spilaði hún stórkostlega...

Svo skilst mér að við skiptinemarnir séu að byrja í sænsku kennslu í dag. Tveir tímar í senn, einu sinni í viku. Hlakka til!

Sunday, September 28, 2008

Ráð við heimþrá...














Á miðvikudaginn síðasta hafði ég verið hérna úti í mánuð. Þá er það ekki fjarri að heimþráin láti á sér kræla og maður sakni allra sem manni þykir vænt um heima. Þá er gott að hella sér í heima- og verkefnavinnuna. Því þar er af nógu að taka. Á mánudaginn verð ég t.d. að skila af mér 5 bls. greinagerð um ritgerðina mína. Þar sem að ég er að fjalla um kvikmyndatónlist , þá þýðir það bókstaflega það að ég þarf að horfa á fuuullt af bíómyndum. Hérna eru þær myndir sem ég er að horfa á núna og greina:
  1. 3:10 to Yuma (1957)
  2. Chaplin: the kid (1921)
  3. La strada (fellini) (1954)
  4. Nosferatu (1922?)
  5. Godfather (1972)
  6. Memoirs of a Geisha (2006)
  7. The Sea Hawk (1940)
  8. Star Wars, New Hope (1977?)
  9. Schindler´s List (1993)
  10. Casablanca (1943?)
Og þetta er bara til að byrja með :) Einnig langar mig að taka fyrir Amelie, Batman: The dark night og fleiri...

Og ef það dugar ekki til , þá hjálpar diskurinn minn "óskalögin 7" til. Þar er að finna þessa ótrúlegu skemmtilegu slagara:
  1. Álfheiður Björk : Eyjólfur & Björn Jörundur
  2. Gaggó Vest : Stebbi Eiríks
  3. Bara ég og þú : Bjarni Ara
  4. Geta Pabbar ekki grátið : SSsól
  5. Stelpurokk : Todmobile
  6. Við eigum samleið : Stjórnin
... og 34 aðrir titlar. Besta uppskriftin er að blasta í botn og bara hlakka til að hitta alla heima þegar önninni líkur...

:)

Friday, September 26, 2008

Saras besök

Hér kemur smá video blog frá helginni okkar Söru. Ástæðan fyrir því að þetta kemur svona seint er sú að ég var að bíða eftir einni video klippu frá Söru, svo tók það frekar langan tíma að "upploada" myndbandinu á netið... gekk ekki í gærkvöldi, þá kom einhver error...

En hérna er það komið loksins :)

og PS: Sumarið er komið aftur til Lund ...

(ég biðst aftur afsökunar á lélegum gæðum úr símanum mínum, og ég er soldið að leika mér með effectana ... vonandi er það ekki of hallærislegt)

Sunday, September 21, 2008

Efnisyfirlit

Þessi færsla er efnisyfirlit yfir það sem við Sara höfum verið að gera um helgina og ætlum að gera. Nánari upplýsingar koma eftir helgi...

  1. Í fyrradag fórum við í búlgverskt matarboð hjá skiptinemunum.
  2. Í gær fórum við á Kulturnatten i Lund.
  3. Í kvöld ætlum við á Fantastik FilmFestival
  4. Á morgun ætlum við til Malmö að versla og skoða skólan minn.
Áfram með gleðina!

Thursday, September 18, 2008

Tungumál álfana!


Það hafa fleiri en einn einstaklingur hérna úti sagt að þeim finnist íslenskan vera annaðhvort kúl eða skemmtilegt tungumál. "Tungumál álfana" sagði einhver af þeim.

Og ég er ekki sá eini sem hefur slíka sögu að segja. Olga minntist á þetta um helgina. Hún og einhverjir íslendingar voru að tala saman niðrí skólanum hennar og þá stoppuðu nokkrir danir álengdar til að hlusta. Eftir stutta stund stoppar Olga að tala og horfir á danina sem segja: "nei sorry, þetta er bara svo kúl mál" (ekki á íslensku samt).

Að ekki sé talað um íslenska tónlist. Hef talað við tvo krakka niðrí skóla um íslenska tónlist. Og þá ekki bara um Björk og Sigurrós. Hjaltalín, Gröndal og fleiri. Og þá er alltaf gaman að segja: "yes, I went/go to school with him/her" eða "yes, she/he went to the same school as me".

Jábbs, það er bara staðreynd. MH, LHÍ og Ísland eru svölust...

Heimurinn veit ekki hvað hann er að fara á mis við ...

Wednesday, September 17, 2008

Á leið heim úr skólanum...


Mér er sagt að skólinn minn sé á landamærum tveggja borgarhluta. Öðru megin finnum við "venjulegt" íbúðarhverfi, en hinu megin á að heita "slæmt" hverfi. Mikið af innflytjendum og veseni. Ekki að ég hafi nokkurtíman tekið eftir neinu veseni. Nema skólinn er alltaf læstur og nemendur þurfa að nota aðgangskort til að komast inn. Ég ætla að segja ykkur í stuttu máli hvernig venjuleg heimferð hjá mér er.

Sjálfur þarf ég að taka strætó í gegnum "vonda" hverfið til að komast í og úr skólanum. Stundum sé ég viltar kanínur skokka milli runna og þær eru ekki bara í kringum skólan. Voðalega krúttlegar. Fyndið að sjá þær svona í miðri borginni, þetta er engin Öskjuhlíð. Svo þegar ég er kominn útá stoppistöðina við Heleneholmsskolan þá eru þar iðulega margir unglingar að bíða einnig eftir áttunni. Það sem er fyndið við það er að þeir myndu flestir falla undir lífstíl sem kallaður er EMO, og er stytting á orðinu emotional. Kannski svona 5-10 árum eftir íslensku emo-unum sem eru byrjaðir að skipta yfir í köflótt mynstur og skæra liti ! So yesterday skiljiði...

Þegar inní áttuna er komið (kemur oftast á 8-10 mín fresti) sér maður fleiri kynlega kvisti. Einu sinni var þar kona að tala í síman. Hún var alveg eins og feitu mömmurnar sem þú sérð í fréttunum frá asturlöndum fjær. Klædd í slæður og allt (ekki að það sé e-ð merkilegt í sjálfu sér þar sem þriðja hver kona sem maður sér í Malmö er klædd þannig). Hún talaði ótrúlega hátt í síman (og þá meina ég ótrúlega hátt) á einhverju máli sem var ekki íslenska, enska né sænska. Mér finnst svona fólk alltaf tala eins og það sé að rífast við einhvern. Ekki nóg með það heldur var hún með eitt barn í fangi og annað í vagni og tennurnar á henni voru slegnar í gull! Já , með svona fólk í strætó þá getur maður alveg sleppt því að fara í bíó.

Næsta skref er venjulega að fara út á Södervarn og ná 171 sem fer til Lund. Það er nú minna mál og tekur oftast 25 mín minnst, þannig að maður bara les eða sofnar. Þeir strætóar eru mjög þægilegir og minna frekar á rútu en strætó.

Og þannig er það ...

Svo er Sara að koma í heimsókn á morgun ! Þá verður glatt á hjalla :)

p.s. þessi kanína er því miður ekki ein af þeim sem búa í kringum skólan...

Tuesday, September 16, 2008

NÝTT símanúmer

Sæl öllsömul.

jú ég er kominn með nýtt símanúmer. Þetta "tre" (aka 3) fyrirtæki var ekki alveg að gera sig fyrir mig, endalaust vesen á því. Þess vegna hef ég núna ákveðið að gefa "telia" séns.

Númerið er: 0046-(0)703148304

Ég held að maður slái bara inn núllið á undan sjöunni ef maður er að hringja innan svíþjóðar. En þið prófið bara bæði :)

Monday, September 15, 2008

Köben






Ég og Hilde (eða Hilde Holland eins og ég vil kalla hana) tókum lest frá Lund Central kl.17 á föstudeginum. Komum til Norreport kl.18 og þá tók við afslöppun og pöbbarölt. Ekki frá miklu að segja svo sem. Aðal stemmingin var að hitta fólkið, Jón Kristján, Olgu og Daða. Lítið MH reunion. Hilde fór heim á laugardeginum en við hin héldum áfram gleðinni. Sáum t.d. band spila sem lúkkaði eins og Bítlarnir en spilaði tónlist í anda Hives. Mjög skemmtileg blanda.







Ég ætla að láta myndirnar tala sínu máli...

Wednesday, September 10, 2008

Brettum upp ermarnar!

Í fyrradag fór þakið mitt að leka. Aðeins oggupons en nóg til þess að ég þurfti að hlaupa til og setja skál undir það. Þegar það dugði ekki til þá stökk ég uppá þak og sópaði vatninu af. Þakið er alveg flatt og bara tímaspursmál hvenær það færi að leka svosem. Þetta væri ekki svo mikið vesen ef lekinn væri ekki beint yfir skrifborðinu mínu... Núna er pólski smiðurinn þeirra Torbjörns og Hrafnhildar að basla e-ð á þakinu að reyna að redda þessu. Hann er hress gaur.

Annað skemmtilegt sem gerðist nýlega: ég var á bókasafninu í skólanum í gær og var í "brennivín - the original icelandic schnapps" bolnum mínum. Ég fann bók sem mig vantaði fyrir ritgerðina mína og gekk upp að útlánsborðinu. Þar var ein af bókasafnsvörðunum, miðaldra kona, og sér mig koma. Fyrsta sem hún gerir er að brosa út að eyrum og kalla: "heeeyy!! Island!" Ég vissi ekki alveg strax hvaðan á mig stóð veðrið, en svo fór hún að segja mér frá því að hún og samstarfsfólk hennar á bókasafninu hefðu farið á bókasafnsráðstefnu á Íslandi í sumar, í Listaháskólanum. Þau nýttu tíman og sáu Gullfoss, skoðuðu Reykjavík og drukki brennivín. "We just love Island". Ekki nóg með það heldur kemur hin bókasafnskonan og hún mundi meira að segja hvað ég heiti, án þess þó að ég hafi nokkur tíman talað við hana þannig séð. "It´s Helgi right?".

Þær fíluðu Brennivín og Gullfoss og skömmuðust sín fyrir að það væri enginn foss eins stór í Svíþjóð. Eða allavega enginn sem þær vissu af. Ég sagðist una mér vel á Skáni og það gladdi þær.

Þannig að ég var hrókur alls fagnaðar í smá stund og þær gleymdu sér næstum því. Klukkan var orðin 16 og þá átti safnið að loka: "oh, er klockan fyra?". Þá var kveðjustund...

Á föstudaginn er svo ferðinni heitið til Köben að hitta Jón, Olgu, Daða og kannski rekst maður á Danna og Elías. Ég fæ að gista hjá Jóni í litla herberginu hans! Hlakka mikið til :P


En Helgi... hvað er að gerast í skólanum?
Gaman að þið skylduð spyrja að því. Ég gerði mér plan fyrir önnina um helgina og komst að því að ég þarf að skrifa 5 verk á 3-4 mánuðum. Ásamt 30 bls. lokaritgerðinni auðvitað. Það verður líklega minna mál en það hljómar, því þessi verk verða öll hluti af lokaverkefninu mínu og þar er framvindan svo skýr. Þá kemur tónlistin "nánast" af sjálfu sér.

En það er samt vissara að bretta upp ermarnar og hefjast handa...

Saturday, September 6, 2008

Menningarkvöld nr.1



Í gær var fyrsta vikulega menningarkvöld okkar skiptinemana. Menningin sem varð fyrir valinu að þessu sinni var sú sænska. Við borðuðum það sem svíarnir kalla "bjúga í ofni" og fengum okkur sænskan snafs eftir á. Mjög einfaldur en góður réttur. Eins og sjá má er þetta einfaldlega bjúga sem er búið að skera raufir í , svo er settur ostur í raufirnar og smurt skánsku sinnepi yfir. Svo er öllu skellt inní ofn. Í eftirrétt voru "ofnpönnukökur". Eins og venjulegar pönnukökur nema léttari.
Til þess að hafa þetta allt ekta þá var nokkrum sænskum samnemendum okkar boðið með og þeir gerðir að línuvörðum! Mikið hlegið og mikið gaman... Skiptinemahópurinn er alltaf að stækka. Nú er kominn spænskur óbóleikari til viðbótar og einnig annar trompetleikari sem ég náði nú ekki að kynna mig fyrir í gær. Við vorum örugglega svona 20 í heildina. Einnig voru skiptinemar úr öðrum deildum þarna. Vinur Hildar (Holland) mætti t.d. en hann er að læra félagsfræði. Ekkert annað en gott að segja frá því ...

Næsta menningarkvöld á að vera belgískt. Katrin og Joris eru búin að lofa okkur rétti sem inniheldur bæði belgískt súkkulaði OG belgískan bjór. Það verður áhugavert !

Á video-inu má svo sjá örlítið brot af matarboði síðustu viku. Þar var eldaður grænmetis gratín réttur með sýrðum rjóma. Hér gefur að líta "upprunalega" skiptinema hópinn...

Thursday, September 4, 2008

Tapas/Leiðrétting


Í gær hitti ég loksins aðal kennarann minn, Rolf Martinsson. Við spjölluðum um hvað ég ætti að gera þessa önnina og hvað mig langaði til að gera og komumst að góðu samkomulagi. Fyrsti fundur okkar lofar góðu um áframhaldandi samstarf. Einnig hitti ég Kent Olofsson sem kennir mér Elektroakustisk musik. Báðir eru þessir menn einkar viðkunnanlegir og ég hlakka til að fara að vinna verkefnin með þeim.
Eftir það fóru allir tónsmíðanemendurnir ásamt kennurunum út að borða á tapas staðinn Mosaik við Storatorget. Ótrúlega dýr staður en stemmingin var góð... Hver réttur kostaði um 50 sænskar (650 isl kr.) og ef þið kannist við tapas rétti þá vitiði að þeir eru mjög litlir hver og einn , og því er þetta verð frekar hátt.

Og talandi um dýrt...

Eftir tapas staðinn fórum við skiptinemarnir ásamt nokkrum sænskum samnemendum okkar á pöbb er kallast Mello Yello. Þar kostaði bjórinn hvorki meira né minna en 66 sænskar krónur. Sem útreiknast sirka sem 850 íslenskar krónur... Fáránlega dýrt , enda fékk ég mér aðeins einn bjór þar. Fólk segir að það sé mjög eðlilegt að matur og drykkir í þessum hluta bæjarinns séu dýrir sökum staðsetningarinnar. Við ætlum næst að undirbúa okkur betur og finna ódýra staði. En fyrir utan hátt verð þá skemmtum við okkur vel. Hjóluðum heim um nóttina syngjandi (við vorum ekki búin að drekka það mikið ;) ).

Klukkan var orðin of margt fyrir mig að taka strætó heim til Lund þannig að ég fékk að gista í stúdenta íbúðinni. Daginn eftir sýndi Karoliina (Eistland) mér sænskt þjóðarhljóðfæri sem ég er búinn að gleyma hvað heitir, en hún er fiðluleikari á þjóðartónlistarbraut (Folk musik). Einstaklega skemmtilegt hljóðfæri og ég bara varð að taka mynd af henni að spila á það til að setja á blogið :P

Í öðrum fréttum:
Tad skal leiðréttast her med ad til tess ad hringja i sænska numerið mitt skal slá inn eftirfarandi:

+46735 083338

Eða svo er mér allavega sagt :)

Ef tid væruð i Svíþjóð ta mynduð þið slá inn 07 35 08 33 38 ... sem sagt sleppa "46" og bæta "0" framan við.

Svona er heimur tækninar börnin god...

Tuesday, September 2, 2008

Sænska símanúmerið mitt

Það er rétt sem þið heyrið á götunni. Helgi er kominn með sænskt símanúmer.

(0046) 46735-083338

Sænska landsnúmerið er (0046).

Og já , netið er komið í lag ;)

Myndin er tekin í nýnemapartý-inu á föstudaginn síðasta. Hún sýnir partý þyrstan en um leið umhyggjusaman faðir og son hans, sem er steeeeeeinsofandi. Tónlistin var há en sá litli hinn rólegasti.