Sunday, September 28, 2008

Ráð við heimþrá...














Á miðvikudaginn síðasta hafði ég verið hérna úti í mánuð. Þá er það ekki fjarri að heimþráin láti á sér kræla og maður sakni allra sem manni þykir vænt um heima. Þá er gott að hella sér í heima- og verkefnavinnuna. Því þar er af nógu að taka. Á mánudaginn verð ég t.d. að skila af mér 5 bls. greinagerð um ritgerðina mína. Þar sem að ég er að fjalla um kvikmyndatónlist , þá þýðir það bókstaflega það að ég þarf að horfa á fuuullt af bíómyndum. Hérna eru þær myndir sem ég er að horfa á núna og greina:
  1. 3:10 to Yuma (1957)
  2. Chaplin: the kid (1921)
  3. La strada (fellini) (1954)
  4. Nosferatu (1922?)
  5. Godfather (1972)
  6. Memoirs of a Geisha (2006)
  7. The Sea Hawk (1940)
  8. Star Wars, New Hope (1977?)
  9. Schindler´s List (1993)
  10. Casablanca (1943?)
Og þetta er bara til að byrja með :) Einnig langar mig að taka fyrir Amelie, Batman: The dark night og fleiri...

Og ef það dugar ekki til , þá hjálpar diskurinn minn "óskalögin 7" til. Þar er að finna þessa ótrúlegu skemmtilegu slagara:
  1. Álfheiður Björk : Eyjólfur & Björn Jörundur
  2. Gaggó Vest : Stebbi Eiríks
  3. Bara ég og þú : Bjarni Ara
  4. Geta Pabbar ekki grátið : SSsól
  5. Stelpurokk : Todmobile
  6. Við eigum samleið : Stjórnin
... og 34 aðrir titlar. Besta uppskriftin er að blasta í botn og bara hlakka til að hitta alla heima þegar önninni líkur...

:)

Friday, September 26, 2008

Saras besök

Hér kemur smá video blog frá helginni okkar Söru. Ástæðan fyrir því að þetta kemur svona seint er sú að ég var að bíða eftir einni video klippu frá Söru, svo tók það frekar langan tíma að "upploada" myndbandinu á netið... gekk ekki í gærkvöldi, þá kom einhver error...

En hérna er það komið loksins :)

og PS: Sumarið er komið aftur til Lund ...

(ég biðst aftur afsökunar á lélegum gæðum úr símanum mínum, og ég er soldið að leika mér með effectana ... vonandi er það ekki of hallærislegt)

Sunday, September 21, 2008

Efnisyfirlit

Þessi færsla er efnisyfirlit yfir það sem við Sara höfum verið að gera um helgina og ætlum að gera. Nánari upplýsingar koma eftir helgi...

  1. Í fyrradag fórum við í búlgverskt matarboð hjá skiptinemunum.
  2. Í gær fórum við á Kulturnatten i Lund.
  3. Í kvöld ætlum við á Fantastik FilmFestival
  4. Á morgun ætlum við til Malmö að versla og skoða skólan minn.
Áfram með gleðina!

Thursday, September 18, 2008

Tungumál álfana!


Það hafa fleiri en einn einstaklingur hérna úti sagt að þeim finnist íslenskan vera annaðhvort kúl eða skemmtilegt tungumál. "Tungumál álfana" sagði einhver af þeim.

Og ég er ekki sá eini sem hefur slíka sögu að segja. Olga minntist á þetta um helgina. Hún og einhverjir íslendingar voru að tala saman niðrí skólanum hennar og þá stoppuðu nokkrir danir álengdar til að hlusta. Eftir stutta stund stoppar Olga að tala og horfir á danina sem segja: "nei sorry, þetta er bara svo kúl mál" (ekki á íslensku samt).

Að ekki sé talað um íslenska tónlist. Hef talað við tvo krakka niðrí skóla um íslenska tónlist. Og þá ekki bara um Björk og Sigurrós. Hjaltalín, Gröndal og fleiri. Og þá er alltaf gaman að segja: "yes, I went/go to school with him/her" eða "yes, she/he went to the same school as me".

Jábbs, það er bara staðreynd. MH, LHÍ og Ísland eru svölust...

Heimurinn veit ekki hvað hann er að fara á mis við ...

Wednesday, September 17, 2008

Á leið heim úr skólanum...


Mér er sagt að skólinn minn sé á landamærum tveggja borgarhluta. Öðru megin finnum við "venjulegt" íbúðarhverfi, en hinu megin á að heita "slæmt" hverfi. Mikið af innflytjendum og veseni. Ekki að ég hafi nokkurtíman tekið eftir neinu veseni. Nema skólinn er alltaf læstur og nemendur þurfa að nota aðgangskort til að komast inn. Ég ætla að segja ykkur í stuttu máli hvernig venjuleg heimferð hjá mér er.

Sjálfur þarf ég að taka strætó í gegnum "vonda" hverfið til að komast í og úr skólanum. Stundum sé ég viltar kanínur skokka milli runna og þær eru ekki bara í kringum skólan. Voðalega krúttlegar. Fyndið að sjá þær svona í miðri borginni, þetta er engin Öskjuhlíð. Svo þegar ég er kominn útá stoppistöðina við Heleneholmsskolan þá eru þar iðulega margir unglingar að bíða einnig eftir áttunni. Það sem er fyndið við það er að þeir myndu flestir falla undir lífstíl sem kallaður er EMO, og er stytting á orðinu emotional. Kannski svona 5-10 árum eftir íslensku emo-unum sem eru byrjaðir að skipta yfir í köflótt mynstur og skæra liti ! So yesterday skiljiði...

Þegar inní áttuna er komið (kemur oftast á 8-10 mín fresti) sér maður fleiri kynlega kvisti. Einu sinni var þar kona að tala í síman. Hún var alveg eins og feitu mömmurnar sem þú sérð í fréttunum frá asturlöndum fjær. Klædd í slæður og allt (ekki að það sé e-ð merkilegt í sjálfu sér þar sem þriðja hver kona sem maður sér í Malmö er klædd þannig). Hún talaði ótrúlega hátt í síman (og þá meina ég ótrúlega hátt) á einhverju máli sem var ekki íslenska, enska né sænska. Mér finnst svona fólk alltaf tala eins og það sé að rífast við einhvern. Ekki nóg með það heldur var hún með eitt barn í fangi og annað í vagni og tennurnar á henni voru slegnar í gull! Já , með svona fólk í strætó þá getur maður alveg sleppt því að fara í bíó.

Næsta skref er venjulega að fara út á Södervarn og ná 171 sem fer til Lund. Það er nú minna mál og tekur oftast 25 mín minnst, þannig að maður bara les eða sofnar. Þeir strætóar eru mjög þægilegir og minna frekar á rútu en strætó.

Og þannig er það ...

Svo er Sara að koma í heimsókn á morgun ! Þá verður glatt á hjalla :)

p.s. þessi kanína er því miður ekki ein af þeim sem búa í kringum skólan...

Tuesday, September 16, 2008

NÝTT símanúmer

Sæl öllsömul.

jú ég er kominn með nýtt símanúmer. Þetta "tre" (aka 3) fyrirtæki var ekki alveg að gera sig fyrir mig, endalaust vesen á því. Þess vegna hef ég núna ákveðið að gefa "telia" séns.

Númerið er: 0046-(0)703148304

Ég held að maður slái bara inn núllið á undan sjöunni ef maður er að hringja innan svíþjóðar. En þið prófið bara bæði :)

Monday, September 15, 2008

Köben






Ég og Hilde (eða Hilde Holland eins og ég vil kalla hana) tókum lest frá Lund Central kl.17 á föstudeginum. Komum til Norreport kl.18 og þá tók við afslöppun og pöbbarölt. Ekki frá miklu að segja svo sem. Aðal stemmingin var að hitta fólkið, Jón Kristján, Olgu og Daða. Lítið MH reunion. Hilde fór heim á laugardeginum en við hin héldum áfram gleðinni. Sáum t.d. band spila sem lúkkaði eins og Bítlarnir en spilaði tónlist í anda Hives. Mjög skemmtileg blanda.







Ég ætla að láta myndirnar tala sínu máli...

Wednesday, September 10, 2008

Brettum upp ermarnar!

Í fyrradag fór þakið mitt að leka. Aðeins oggupons en nóg til þess að ég þurfti að hlaupa til og setja skál undir það. Þegar það dugði ekki til þá stökk ég uppá þak og sópaði vatninu af. Þakið er alveg flatt og bara tímaspursmál hvenær það færi að leka svosem. Þetta væri ekki svo mikið vesen ef lekinn væri ekki beint yfir skrifborðinu mínu... Núna er pólski smiðurinn þeirra Torbjörns og Hrafnhildar að basla e-ð á þakinu að reyna að redda þessu. Hann er hress gaur.

Annað skemmtilegt sem gerðist nýlega: ég var á bókasafninu í skólanum í gær og var í "brennivín - the original icelandic schnapps" bolnum mínum. Ég fann bók sem mig vantaði fyrir ritgerðina mína og gekk upp að útlánsborðinu. Þar var ein af bókasafnsvörðunum, miðaldra kona, og sér mig koma. Fyrsta sem hún gerir er að brosa út að eyrum og kalla: "heeeyy!! Island!" Ég vissi ekki alveg strax hvaðan á mig stóð veðrið, en svo fór hún að segja mér frá því að hún og samstarfsfólk hennar á bókasafninu hefðu farið á bókasafnsráðstefnu á Íslandi í sumar, í Listaháskólanum. Þau nýttu tíman og sáu Gullfoss, skoðuðu Reykjavík og drukki brennivín. "We just love Island". Ekki nóg með það heldur kemur hin bókasafnskonan og hún mundi meira að segja hvað ég heiti, án þess þó að ég hafi nokkur tíman talað við hana þannig séð. "It´s Helgi right?".

Þær fíluðu Brennivín og Gullfoss og skömmuðust sín fyrir að það væri enginn foss eins stór í Svíþjóð. Eða allavega enginn sem þær vissu af. Ég sagðist una mér vel á Skáni og það gladdi þær.

Þannig að ég var hrókur alls fagnaðar í smá stund og þær gleymdu sér næstum því. Klukkan var orðin 16 og þá átti safnið að loka: "oh, er klockan fyra?". Þá var kveðjustund...

Á föstudaginn er svo ferðinni heitið til Köben að hitta Jón, Olgu, Daða og kannski rekst maður á Danna og Elías. Ég fæ að gista hjá Jóni í litla herberginu hans! Hlakka mikið til :P


En Helgi... hvað er að gerast í skólanum?
Gaman að þið skylduð spyrja að því. Ég gerði mér plan fyrir önnina um helgina og komst að því að ég þarf að skrifa 5 verk á 3-4 mánuðum. Ásamt 30 bls. lokaritgerðinni auðvitað. Það verður líklega minna mál en það hljómar, því þessi verk verða öll hluti af lokaverkefninu mínu og þar er framvindan svo skýr. Þá kemur tónlistin "nánast" af sjálfu sér.

En það er samt vissara að bretta upp ermarnar og hefjast handa...

Saturday, September 6, 2008

Menningarkvöld nr.1



Í gær var fyrsta vikulega menningarkvöld okkar skiptinemana. Menningin sem varð fyrir valinu að þessu sinni var sú sænska. Við borðuðum það sem svíarnir kalla "bjúga í ofni" og fengum okkur sænskan snafs eftir á. Mjög einfaldur en góður réttur. Eins og sjá má er þetta einfaldlega bjúga sem er búið að skera raufir í , svo er settur ostur í raufirnar og smurt skánsku sinnepi yfir. Svo er öllu skellt inní ofn. Í eftirrétt voru "ofnpönnukökur". Eins og venjulegar pönnukökur nema léttari.
Til þess að hafa þetta allt ekta þá var nokkrum sænskum samnemendum okkar boðið með og þeir gerðir að línuvörðum! Mikið hlegið og mikið gaman... Skiptinemahópurinn er alltaf að stækka. Nú er kominn spænskur óbóleikari til viðbótar og einnig annar trompetleikari sem ég náði nú ekki að kynna mig fyrir í gær. Við vorum örugglega svona 20 í heildina. Einnig voru skiptinemar úr öðrum deildum þarna. Vinur Hildar (Holland) mætti t.d. en hann er að læra félagsfræði. Ekkert annað en gott að segja frá því ...

Næsta menningarkvöld á að vera belgískt. Katrin og Joris eru búin að lofa okkur rétti sem inniheldur bæði belgískt súkkulaði OG belgískan bjór. Það verður áhugavert !

Á video-inu má svo sjá örlítið brot af matarboði síðustu viku. Þar var eldaður grænmetis gratín réttur með sýrðum rjóma. Hér gefur að líta "upprunalega" skiptinema hópinn...

Thursday, September 4, 2008

Tapas/Leiðrétting


Í gær hitti ég loksins aðal kennarann minn, Rolf Martinsson. Við spjölluðum um hvað ég ætti að gera þessa önnina og hvað mig langaði til að gera og komumst að góðu samkomulagi. Fyrsti fundur okkar lofar góðu um áframhaldandi samstarf. Einnig hitti ég Kent Olofsson sem kennir mér Elektroakustisk musik. Báðir eru þessir menn einkar viðkunnanlegir og ég hlakka til að fara að vinna verkefnin með þeim.
Eftir það fóru allir tónsmíðanemendurnir ásamt kennurunum út að borða á tapas staðinn Mosaik við Storatorget. Ótrúlega dýr staður en stemmingin var góð... Hver réttur kostaði um 50 sænskar (650 isl kr.) og ef þið kannist við tapas rétti þá vitiði að þeir eru mjög litlir hver og einn , og því er þetta verð frekar hátt.

Og talandi um dýrt...

Eftir tapas staðinn fórum við skiptinemarnir ásamt nokkrum sænskum samnemendum okkar á pöbb er kallast Mello Yello. Þar kostaði bjórinn hvorki meira né minna en 66 sænskar krónur. Sem útreiknast sirka sem 850 íslenskar krónur... Fáránlega dýrt , enda fékk ég mér aðeins einn bjór þar. Fólk segir að það sé mjög eðlilegt að matur og drykkir í þessum hluta bæjarinns séu dýrir sökum staðsetningarinnar. Við ætlum næst að undirbúa okkur betur og finna ódýra staði. En fyrir utan hátt verð þá skemmtum við okkur vel. Hjóluðum heim um nóttina syngjandi (við vorum ekki búin að drekka það mikið ;) ).

Klukkan var orðin of margt fyrir mig að taka strætó heim til Lund þannig að ég fékk að gista í stúdenta íbúðinni. Daginn eftir sýndi Karoliina (Eistland) mér sænskt þjóðarhljóðfæri sem ég er búinn að gleyma hvað heitir, en hún er fiðluleikari á þjóðartónlistarbraut (Folk musik). Einstaklega skemmtilegt hljóðfæri og ég bara varð að taka mynd af henni að spila á það til að setja á blogið :P

Í öðrum fréttum:
Tad skal leiðréttast her med ad til tess ad hringja i sænska numerið mitt skal slá inn eftirfarandi:

+46735 083338

Eða svo er mér allavega sagt :)

Ef tid væruð i Svíþjóð ta mynduð þið slá inn 07 35 08 33 38 ... sem sagt sleppa "46" og bæta "0" framan við.

Svona er heimur tækninar börnin god...

Tuesday, September 2, 2008

Sænska símanúmerið mitt

Það er rétt sem þið heyrið á götunni. Helgi er kominn með sænskt símanúmer.

(0046) 46735-083338

Sænska landsnúmerið er (0046).

Og já , netið er komið í lag ;)

Myndin er tekin í nýnemapartý-inu á föstudaginn síðasta. Hún sýnir partý þyrstan en um leið umhyggjusaman faðir og son hans, sem er steeeeeeinsofandi. Tónlistin var há en sá litli hinn rólegasti.

Monday, September 1, 2008

internetlaus


Langaði bara að láta þá sem málið varðar vita af því að ég er internetlaus heima við sem stendur. Núna er ég á skólanetinu inná bókasafni. Internet reikningurinn minn rann út og til þess að fylla á hann verð ég að fara á ákveðna heimasíðu...
En til að komast á þessa ákveðnu heimasíðu þarf ég að hafa sænskt símanúmer. Þess vegna verð ég að redda því fyrst áður en ég get fyllt á netið.

Reddast vonandi í kvöld...


Annars þá er þetta splunkunýtt bókasafn og þar er góð aðstaða til að læra! Myndirnar sýnir hluta af vínilplötu safni safnsins og tölvu/tímarita aðstöðuna.