Thursday, October 30, 2008

Stockholm, 1. ferð




Sara kom til mín um kvöldið þann 23.okt. Ég sótti hana útá Malmö centralstation en kjáninn sem ég er sagði henni óvart að fara út af á einni stöð of snemma. Það var nú ekki alvarlegra en svo að hún hoppaði bara uppí næstu lest og var komin 15 mín seinna. Morguninn eftir höfðum við pantað bílaleigubíl á netinu hjá Avis vini okkar. Við skelltum okkur til þeirra kl.10 en kjáninn sem ég er gleymdi að taka með mér kreditkort, því það þarf greinilega alltaf þegar maður leigir sér bíl. En það hef ég aldrei gert áður í eigin persónu. Sem betur fer var Sara með sitt á sér þannig að það reddaðist, og herramaðurinn sem ég er lagði inná hana bara þegar við komum heim.

En ég var ekki bara kjáni í þessari ferð, fall er fararheill... ég stóð mig mjög vel það sem eftir var. Smurði meira að segja fullt af nesti fyrir okkur...

Þannig æxlaðist það að við lögðum af stað til Stockholm kl.11 þann 24.okt. Hrafnhildur og Torbjörn lánuðu okkur GPS tæki sem kom að góðum notum. Ferðin gekk vel þangað til við vorum nánast komin að Jynköping, EN ÞÁ BILAÐI BÍLLINN! Gat nú skeð. En við tókum þessu af þroska, hringdum strax í Avis sem hringdi strax í dráttarbíl sem hringdi svo aftur í Avis og læt senda nýjan bíl handa okkur. Eftir einn og hálfan tíma vorum við komin aftur á veginn og létum eins og ekkert hefði í skorist.

Eitt sem maður sér þegar maður keyrir um Svíþjóð... mikið af trjám. Hálfa leiðina sér maður ekkert útsýni fyrir öllum trjánum. En þegar maður kemur að vötnunum hjá Jynköping fer að "létta til" og maður getur dáðst að náttúrunni.

Við komum inní Stockholm þegar það var orðið dimmt, um kl.19:30. Og viltumst við eða hvað? Já , við viltumst. Það sem við klikkuðum á var að fylgja bara myndinni á GPS tækinu. Þetta er rosaleg borg með slaufum sem geta orðið alltað 3ja hæða. Götu netið er svo þykkt að það var varla hægt að sjá hvort maður ætti að beygja til vinstri eða hægri á skjánum. Eftir að hafa keyrt í tvo hringi benti Sara réttilega á það að við ættum frekar að fylgja götuheitunum. Það gerðum við og þá fórum við að rúlla í rétta átt.

Komum til Dúddu kl.20 eins og planað hefði verið. Dúdda er systir mömmu Söru og býr í Stockholm, bara svo þið vitið. Þar var okkur boðið í mat og svefn, sem við þáðum með þökkum.

Daginn eftir fórum við niðrá Drottningargötu í miðbænum og röltum hana þangað til við komum inná Gamla Stan eyjuna. Þar er elsti hluti borgarinnar og það var mælt með því við okkur að við færum þangað. Mjög fallegt, en þegar maður býr í Lund, þá sér maður svipuð hús nánast á hverjum degi. Frá Gamla Stan fórum við í bátsferð til Tívólísins og til baka, en tívólí-ið var lokað svo við fórum ekkert í það. Aðalega til þess gert að sjá borgina.

Fyrir þá sem ekki vita er Stockholmur byggður á árósum, þ.e.a.s. eyjum. Sem gefur borginni mjög sterkan svip og ég heillaðist alveg undir eins. Get varla beðið að fara aftur... það fer nú samt að styttast í það. Rolf kennarinn minn og allir tónsmíða nemendurnir fara á klassíska tónlistar hátíð þar í boði skólans 6.-8. nóv. Þá verður stuð !!

Saríanna frænka Söru (25 ára) hitti okkur seinni partinn og gat sýnt okkur aðeins um borgina og sagt okkur hluta af sögu hennar.

Við Sara ákváðum að vera ekkert að fara á djammið að þessu sinni, fórum heldur heim til Dúddu í Sushi og spjall. Sátum, borðuðum og spjölluðum allt kvöldið. Frá 19-24. Ótrúlega kósý og mjög mikilvægt fyrir mig að eiga svona stórar fjölskyldu máltíðir þar sem ég borða oftast einn hérna úti í herberginu mínu.

Talandi um fjölskyldur þá eru foreldrar mínir líklegast í loftinu núna á leiðinni í heimsókn. Ég tek á móti þeim útá Lund Central rúmlega 13. Alltaf gaman að fá heimsóknir !

Daginn eftir keyrðum við af stað heim. Við ætluðum að leggja af stað kl.9:30 en töfðumst í dýrindis morgunverði og kveðjum til rúmlega 10. Þegar við vorum rétt komin út fyrir borgina hringir Dúdda í okkur: "krakkar ég gleymdi að segja ykkur að það er kominn vetrartími núna". Sem þýðir einfaldlega það að við græddum einn klukkutíma og vorum því lögð af stað á hárréttum tíma! Svona erum við ótrúlega stundvís (og heppin).

Ferðin heim gekk hrakfallalaust fyrir sig nema Sara fékk pizzu í hádegismat sem henni fannst ekki góð :P

Áfram með gleðina!

p.s. ég ætla að setja inn fleiri myndir og kannski video þegar síminn minn nær að hlaða sig. Hleðslutækið hlýtur að koma í dag...

Tuesday, October 28, 2008

töf

Sæl öll sömul. Ég ætlaði að koma með rosalegt blog í dag... myndir, video og sögur... en svo varð síminn minn rafmagnslaus og þar eru nokkur video sem ég ætlaði að nota. Undir venjulegum kringumstæðum myndi ég bara hlaða hann, en ég gleymdi hleðslutækinu hjá Dúddu útí Stokkhólmi. Ekki er þó öll von úti því það er á leiðinni í póstinum og ætti að koma til mín á morgun... þá kemur roslega blogið :)

Wednesday, October 22, 2008

på väg til Stockholm!



Sara kemur á morgun í heimsókn nr.2. Við erum búin að taka frá bíl hjá Avis og ætlum að keyra til Stockholm snemma á föstudaginn. Ferðin tekur örugglega svona 6-7 tíma er mér sagt, en við fáum lánað GPS tæki hjá Hrafnhildi þannig að ég hef engar áhyggjur. Við gistum hjá frænku Söru í einu af úthverfunum. Minnir að Sara hafi sagt að gatan héti Hjartargata. Hún bara leiðréttir það ef svo er ekki ... Ég hlakka allavega óóótrúlega til og get varla beðið. Löngu kominn tími á að breyta aðeins til í rútínu hversdagsins. Það kemur líklega brjálað mynda og videoblog eftir helgi ! En þangað til...

... áfram með gleðina...

Monday, October 20, 2008

Video gláp


Núna er önnur yfirferð hafin. Í gær horfði ég aftur á Godfather og The Sea Hawk. Í dag er það The pianist og 8 mile... kannski fleiri. Í annarri yfirferð horfi ég á myndina og punkta hjá mér alla staði þar sem tónlist kemur fyrir og kannski smá punkt um það afhverju tónlistin sé þarna en ekki annars staðar. Í þriðju yfirferð þá hoppa ég bara beint á tónlistarstaðina og sé hvort það séu einhverjar leyndar tengingar á milli þeirra.

Sumir myndu segja að þetta væri nú frekar skemmtileg gerð af rannsóknarvinnu fyrir ritgerð. Bara horfa á bíómyndir. Jú jú ég get alveg tekið undir það, en þetta er líka mjöööög tímafrekt. Kostir og gallar við allt.

Þar sem ég er að skrifa um frumleika í nútíma kvikmyndatónlist , þá er næsta verkefni að finna einhverja mynd sem er yndislega ófrumleg þegar kemur að tónlistar framsetningu. Þá mynd ætla ég að hafa sem miðpunkt ritgerðarinnar... síðan flokka ég allar hinar myndirnar niður í flokka og tala um þær með hliðsjón af þessari yndislega ófrumlegu.

Áfram með gleðina...

p.s. svona í lokin verð ég að benda ykkur á merkilega grein sem rithöfundurinn Andri Snær skrifaði á vísir.is. Skyldulesning fyrir alla: "úr einu ruglinu í annað"

Friday, October 17, 2008

Folk musik

Það sem mér finnst áhugaverðast við MHM (musikhögskolan i malmö) er sú staðreynd að það sé hægt að vera á Folk musik braut. Þ.e.a.s. þjóðartónlistarbraut. Í LHÍ höfum við ekkert sem kemst nálægt þessu, nema þau séu búin að negla inn einhverjum nýjum kúrsum á meðan ég hef verið í burtu. Á miðvikudaginn tóku nokkrir Folk musik nemendur sig saman og héldu smá dansiball, bæði til að þau gætu æft sig og svo vantar alveg fleiri félagslega viðburði innan skólans finnst mér. Auðvitað skellti ég mér... tók nokkur spor... og einnig nokkur video... Söngvarinn í video-inu (sem ég því miður man ekki hvað heitir) kenndi mér nokkur spor og svo skelltum við Katrin (Belgía) okkur útí djúpu laugina og lærðum með því að byrja bara á því að bulla e-ð. Mjööög skemmtilegt.

Þetta snýst aðalega um að ganga í takt , snúa sér og dansfélaganum þegar maður er í stuði til þess og svo stappa niður af og til á þungu slagi. En ef maður er einn af þeim lengri komnu, þá getur maður tekið spor eins og þau gera í síðustu klippunni. Beygja sig niður á hnén eða slá saman hæl og lófa. Svo er það bara hugmyndaflugið...

Wednesday, October 15, 2008

Kemur aldrei vetur á Skáni?


Mér skilst að það komi aldrei vetur á skáni. Svo segir allavega hún Bryndís sem bauð okkur Jóni í óperuna um daginn. Hún lýsir sínum fyrsta "vetri" á skáni svona: "það var sumar, svo kom haust... svo kom haust... svo var haust... og svo kom vor!"

Ég gerði mér varla grein fyrir því hvað tímanum líður. Kominn svo að segja miður október... og á mánudaginn rölti ég í ræktina á bolnum. Glampandi sól. Ekki kannski heitt þannig séð , en alls ekki kalt heldur. Í dag er rigning og rok, en í gær þegar ég mætti í skólan var stemmingin mjög sumarleg. Margir sátu léttklæddir úti í hádegispásunni sinni, með bros á vör.

En núna verð ég að halda áfram að skrifa ritgerðina mína ... hún er loksins komin á skrið.

Áfram með gleðina!

Sunday, October 12, 2008

Tusse och Jag



Hér á bæ eru tveir kettir. Tusse og Sessie. Karin nefndi þá eftir persónum í sænskum barnaþætti. Fyrsta mánuðinn voru kettirnir ekki alveg sáttir með mig hérna. Könnuðust ekki við mig og hlupu hræddir í burtu þegar ég reyndi að nálgast þá. Sessie er eldri og virðist ráða ferðinni, leyfir Tusse varla að koma inní húsið nema bara til að borða. Þannig að Tusse sefur alltaf útí garði. Nýlega hinsvegar, höfum við Tusse orðið ágætis vinir. Ég bræddi hjarta hans með reyktri skinku. Núna hef ég loksins vingast við alla meðlimi hússins. Sessie er kannski aðeins þrjóskari en virðist vera búin að viðurkenna mig á heimilinu. Góður mælikvarði er hvort þeir leyfa manni að taka sig upp. Sessie kvæsir bara , en Tusse er orðinn afslappaðri...

Á föstudaginn fór ég í partý. Við krakkarnir ætluðum í international partý en svo var uppselt, þeir sem áttu miða fóru inn en við hin fórum annað. Ég komst að því að Lund háskólinn er einn sá stærsti í Evrópu þegar kemur að skiptinemum svo það var nóóóóg af útlendingum á svæðinu. Til að gefa ykkur einhverja hugmynd þá eru stofnaðir svona mentor hópar svo að skiptinemarnir kynnist innbyrðis. Til erum 40 hópar og í hverjum eru ca.30. Ég kynntist t.d. kínverskum strák að nafni Dong Yang. Hann var ótrúlega sleipur í ensku og mjög gaman að spjalla við hann og fræðast um fjarlæga menningarheima. Eftir að hafa verið úthýsað úr því festi fórum við Dong og fleiri í næsta nation hús. Nation eru einskonar nemendafélag og svoleiðis félög má finna útum allan bæ. Stórar byggingar þar sem nemendur lifa og djamma.

Fyrir utan húsið var rauður dregill og dyraverðir. Eftir að hafa þurft að tala dyravörðinn til (því við vorum ekki meðlimir í nation-inu, þýski strákurinn sá um það, Mikael?) komumst við loksins inn. Þessi staður minnti mun meira á næturklúbb en nemendafélag... tveir barir, fatahengi, pulsusala... bara allt :)

Hér er lítið video sem sýnir hvernig stemmingin er á leiðinni út á lífið. Venjan er sú að fara á hjóli sem mér fannst svona frekar fyndið, en meikar líka fullkomið sens. Lagið er "party song" með Blink 182, svona aðeins til að peppa upp annars atburðalaust video :P


p.s. Svar við spurningu Ernu frænku. Ritgerðin gengur allt í lagi, hún liggur samt í salti eins og er. Það eru verk sem þarf að æfa sem ég þarf að klára áður en ég helli mér 120% í hana :P

Thursday, October 9, 2008

Íslensk...?

Þegar maður aðhefst í stórborg eins og Malmö þá er það ekki fjarri að ópersónulegur tónn svífi yfir vötnum. Hundruðir þúsunda sem ana um göturnar í sínum erindagjörðum. Þetta er enginn Hvammstangi þar sem allir þekkja alla.

Í svona kringumstæðum gæti verið hæpin hugmynd að kynnast einhverju nýju fólki. Allir í vörn en varnarlausir inn við beinið.

Samt sem áður henti það mig um daginn...

Þar sem ég sat á Södervarn að bíða eftir 171 til Lund sest kona á bekkin við hliðiná mér, góð viðbót við félagsskapinn sem ég hafði fram að því. Þoglumæltur róni að tala um biblíuna á sænsku, mjög gaman. Við yrðum nú ekkert á hvort annað fyrr en eftir að hún hefur tekið upp síman og hringt eitt símtal. Hún hringir og er að reyna að ná sambandi við einhvern Sverri (sem ég veit núna að er yfirmaður hennar). Auðvitað gríp ég það á lofti og spyr hvort hún sé íslensk. Svo var ekki , ítölsk er hún og við tökum að snakka um hitt og þetta á leiðinni í bussinum. Í ljós kemur að við höfum nánast sama klassíska tónlistarsmekk og búum nálægt hvort öðru í Lund.

Svo sem ekkert merkileg saga í sjálfu sér og ég á örugglega aldrei eftir að rekast á hana aftur. Það er bara svo gaman af fólki og samskiptum...

Monday, October 6, 2008

Áfram með gleðina



Mikið sungið og hlegið á laugardaginn í íslendingapartý-inu. Ósköp venjuleg gleði annars og ekki frá miklu að segja. Langaði bara að deila með ykkur nokkrum góðum myndum sem Skúli tók. Við Olga gistum svo hjá Jóni og áttum alvöru Sunnudag. Vöknuðum kl.14, náðum í Kebab og horfðum svo á myndina Superbad... góð stemming það...

P.s.
Það má taka það fram að þessar tómu bjórdósir eru ekki allar eftir okkur. Mest var eftir partý sem var kvöldið áður í sömu íbúð. Flott mynd samt :)

P.s.2
Ég var bara að muna hvað mig dreymdi í nótt. Mig dreymdi að mér hefði áskotnast ókeypis flug til íslands og að ég hafi skroppið heim yfir helgina og hitt alla. Ég man sérstaklega eftir að hafa dreymt Gulla og Depil. Þeir tveir sem ég hef ekkert heyrt í, né séð, eftir að ég fór út. Ef þið sjáið þá , þá megið þið klappa þeim frá mér og segja þeim að drulla sér á msn :P

Áfram með gleðina !

Saturday, October 4, 2008

Svensk lektion/gjaldþrot skiptinemanna




Mér áskotnuðust 2 frímiðar á generalprufu Konunglegu Dönsku óperunnar á stykkinu "partenope" eftir George Frideric Handel. Ég og Jón skelltum okkur á fimmtudaginn. Þetta eru tæpir 4 tímar svo við ákváðum að láta okkur hverfa eftir annað hlé. Ekki því að stykkið væri ótrúlega leiðinlegt, heldur því við höfðum planað að hitta fólk á bar (hvar hafa dagar lífs þíns lit sínum glatað þegar börnin stinga af úr óperu til að fara á bar). Jón hafði kannski heldur ekki alveg eins mikla list á þessu og ég. Og ekkert nema gott um það að segja. Svo er næsta dönskuferð áætluð í kvöld. Daði ætlar að halda íslendinga partý ... löngu kominn tími á það segi ég.
Það verður samt líklega síðasta danmerkur ferðin í einhvern tíma , þar sem ég verð að fara að spara penginginn. Samhliða gjaldþroti bankanna og íslensku krónunnar kemur gjaldþrot skiptinemanna. Nú kostar allt nánast tvöfallt í DK það sem það kostaði fyrir stuttum tveimur vikum síðar. Sænska krónan er sem betur fer "bara" 16 íslenskar á meðan sú danska er 20. Nú hættir maður að fara út að borða í smá tíma og kaupir bara Euroshopper mat í kjörbúðinni.

Til að svara mömmu gellu, þá er hér lýsing á fyrsta sænskutímanum okkar.

Þetta er stór hópur, uþb 10-12 krakkar, og á mjög misjöfnu stigi í sínu sænskunámi. Gong frá Kína t.d. (já , hann heitir Gong :) ) er á algerum núll punkti á meðan Masa frá Japan og Peter frá Búlgaríu kunna smá. Veit ekki alveg með Fabíó frá Ítalíu (já, hann heitir Fabíó). En svo erum við hin , sem kunnum ágætan grunn. Þetta er erfiður hópur að kenna ég veit , en flestir af okkur sem kunna e-ð urðum fyrir smá vonbrigðum með tímann.

Eina sem við gerðum var að segja: "vad heter du" við hvort annað og læra aðeins um þjóðerni hvors annars. Þar sem að þetta eru tveir og hálfur tími ætlum við að biðja um að honum verði skipt í tvennt svo allir fái e-ð fyrir sinn snúð. Fyrri helmingurinn verði grunnatriði og seinni verði fyrir lengra komna. Og annar helmingurinn getur þá gert einhver verkefni á meðan hinn er að vinna með kennaranum.

Annars læri ég mest á því að tala bara við vini mína annaðhvort á msn eða í skólanum...

Wednesday, October 1, 2008

den vacraste stad i hela Sverige!









































Ja, Helgi bör i den vacraste stad i hela Sverige: Lund! (vacraste - fallegasta)

Það er ótrúlega upplífgandi að fá sér göngutúr um bæinn eftir að hafa verið að læra allan morguninn. Alltaf e-ð nýtt að sjá og byggingarnar auðvitað ævintýralegar.

Lét svo líka fylgja með mynd frá útskriftar tónleikum skólans. Hér er fiðlueinleikari að spila með Malmö symphonie. Og hún var að útskrifast með hvorki meira né minna en doktorsgráðu í fiðluleik. Enda spilaði hún stórkostlega...

Svo skilst mér að við skiptinemarnir séu að byrja í sænsku kennslu í dag. Tveir tímar í senn, einu sinni í viku. Hlakka til!