Wednesday, December 8, 2010

Guildhall viðtal



Um helgina fór ég til London í viðtal fyrir Master í tónsmíðum hjá Guildhall, school of music and drama (http://www.gsmd.ac.uk/). Til að gera langa sögu stutta, þá fékk ég, svo að segja, samstundis inngöngu.

Hér er lengri útgáfan: Ég var mættur tveimur tímum fyrir viðtalið til að geta litið á Barbican Center sem er þarna samtengt skólanum. Þar er að finna, fyrir þá sem ekki vita, tónleikasali, listasöfn, veitingastaði, kaffihús, leikhús o.fl. Ekki amalegt að hafa þá aðstöðu í næsta húsi.

Þegar klukkan var orðin 17:10 var mér vísað á æfingaherbergi þar sem ég gat undirbúið mig fyrir viðtalið. kl.17:50 sótti annar prófdómarinn mig og fylgdi mér í viðtalið. Venjulegt viðtal svosem; við ræddum fyrri menntun, framtíðarhorfur, spurningar mínar varðandi námið og væntingar, tónlistina sem ég sendi inn o.fl. Þeir voru sérstaklega hrifnir af kórverkinu mínu ´Ég hverf brátt til skýja´.

Að viðtalinu loknu var ég beðinn um að stíga stutt fram á gang svo þeir gætu rætt saman. Eftir 30 sek. hóuðu þeir aftur í mig og sögðust vilja veita mér inngöngu strax. Ég þakkaði auðsýndan heiður. Mér lýst vel á skólan, umhverfið, kennarana og andan, en ég á ennþá eftir að skoða Konunglegu skólana í Köben og Stokkhólmi.

Ég fékk póst frá Köben (http://www.dkdm.dk/) í gær þar sem þau boðuðu mig í viðtal, á þó eftir að fá nákvæma tímasetningu.

Wednesday, November 24, 2010

Tónbrot

Þá er það endanlega komið. Verkið er tilbúið og ég orðinn stoltur hljómkviðu eigandi. Stykkið er í prentun og ég á von á litlum 12 A3 eintökum í dag, svo verður þessu skellt í umslög og sent útí heim í skóla víðsvegar með umsókn um mastersnám.

Hérna er brot úr verkinu (2.kafli, um miðbik verksins) (athugið að þetta er aðeins midi afspilun, tölvan spilar ekki verkið 100% eins og það myndi hljóma í lifandi fluttningi)

Skuggablomsymphonysample1 by HelgiRafn

Saturday, November 13, 2010

Tvístrik #1











Tvístrikið fræga er komið! Spjallið við Hróðmar var einkar gagnlegt og mörg tæknileg atriði löguð. Svo hjálpaði líka bókin sem ég var að fá í hendurnar frá amazon.com: music notation in the twentieth century a practical guidebook (takk Einar) og þá sérstaklega fyrir hörpu partinn, þar sem miklir tækni núansar tengjast því hljóðfæri. Ég lærði heldur betur af því þegar ég skrifaði fyrir hörpuleikara útí Malmö haustið 2008 og fékk partinn til baka allan útkrotaðan með leiðréttingum.

Þó að tvístrikið sé komið við endan er ekki öll vinnan búin, nú þarf að fara í gegnum hvert hljóðfæri fyrir sig (35 talsins) og hreinskrifa.

Ég ætla að skella tóndæmi úr verkinu á síðuna fljótlega...

Sunday, October 31, 2010

Kaflarnir þrír

Nýtt verkefni hefur litið dagsins ljós. Ég og vinur minn Jón Gunnar Biering (Shadow Parade) erum að vinna í því að koma frá okkur nokkrum lögum í prufutöku formi, sem þá vonandi þróast e-ð áfram. Eins og er, virðist stefnan vera tekin á elektrónískt alþýðupopp en það getur ennþá allt breyst.

Hljómkviða #1 gengur vel og fer ég með hana í prófarkarlesningu til Hróðmars Sigurbjörnssonar tónskálds í komandi viku og ætti maður þá að geta sett tvístrikið fræga fyrir aftan síðustu nótuna í nóvember, fyrir utan hreinskrif og annað dúll. Það kæmi mér svo sem ekkert á óvart ef maður væri að dúlla sér í því fram í janúar. Alveg sama hvað maður rennir oft yfir verk, það er alltaf hægt að finna e-ð til að slípa.

Mesti höfuðverkurinn núna er að ákvarða hvort og hvar eigi að fjölga hljóðfærum eða fækka til að ná sem bestu jafnvægi milli hljóðfærahópa.

Ég er búinn að vera að flakka á milli þess að hafa verkið bara einn kafla eða taka það alla leið og hafa þá þrjá. Í dag hallast ég að því að hafa það bara einn kafla í bili en ég get þá alltaf bætt við seinna hinum tveimur til að fullkomna söguna.

-1.kafli er frásögn Tinnu um hennar líðan í klóm Skuggablómanna (Arían "Drottning í húmi").
-Kafli 2 segði frá Skuggablómunum og hvernig þau vilja fá Tinnu endanlega inní myrkrið með því að krýna hana til drottningar í hirð sinni (Aríósan "Vesalings Tinna")
kafla 3 stígur Hrafn inní söguna, hjálpar Tinnu að hjálpa sjálfri sér og Skuggablómin lúta í lægri hlut, allavega í bili (óákveðið tónefni, líklega dúett arían úr 2.þætti)

Fínt að taka eitt skref (kafla) í einu.

Talandi um hljómkviður: Beethoven er alltaf góður
http://www.youtube.com/watch?v=4uOxOgm5jQ4

http://www.youtube.com/watch?v=rRgXUFnfKIY

Friday, September 17, 2010

Hljómkviða #1


Hljómkviða nr.1 er í vinnslu. Hérna er forsíðan eins og hún lítur út í dag. Tónefni hennar er unnið úr tveimur aríum úr Óperuþykkninu Skuggablóm sem við Árni Kristjánsson skrifuðum 2007 og óperudeild Söngskólans í Reykjavík frumflutti svo eftirminnilega 24.október sama ár í Salnum Kópavogi með styrk frá Kópavogsbæ.

Áætluð verklok: Janúar/Febrúar 2011