Tuesday, June 25, 2013

Stafnbúi - rýni

Hér á eftir fer smá texti sem ég setti saman er ég var að sækja um starf hjá hlestu blöðum Íslands sem tónlistarrýnir. Er það rann út í sandinn sat ég uppi með grein sem enginn vildi birta. Hví ekki að birta hana þá hér svo hún geymist og nýtist þá vonandi í e-ð nýtilegt í framtíðinni.








Hið upprunalega og einfalda (mestmegnis)
Umfjöllun og gagnrýni á hljómplötunni
Stafnbúi
eftir
Steindór Andersen og Hilmar Örn Hilmarsson

Stafnbúi er nýjasta hljómplata Steindórs Andersens kvæðamanns, en hann hefur
áður unnið með tónlistarfólki eins og SigurRós, Erpi Eyvindarsyni rappara og
fleirum. Í þetta sinn, þó ekki í fyrsta sinn, sér Hilmar Örn Hilmarsson,
kvikmyndatónskáld, um tónlistina. Stafnbúi er einstaklega eiguleg útgáfa. Í stað
venjulegs hulsturs fylgir diskurinn með í 80 blaðsíðna myndskreyttri bók. Að
sjálfsögðu fylgja öll kvæðin með í bókinni sem gefur útgáfunni um leið annað líf
sem vísnabók og einnig er að finna í bókinni áhugaverða fræðslu um uppruna og
eðli rímunnar. Hinar veglegu umbúðir plötunnar þykja mér þó ekki tóna við
innihaldið, sem mætti vera veglegra.

Áratuga framlag Steindórs Andersen, kvæðamanns, við varðveislu og almenns
viðhalds rímunnar er ómetanlegt og sú reynsla hans skilar sér í öruggum og
sannfærandi flutningi á plötunni, þó tilbreytingarlítill sé. Sigríður Thorlacius á
góða innkomu um miðbik plötunnar, í Yfirlit – fundurinn, sem er kærkomin
tilbreyting. En án þess að véfengja hæfileika Sigríðar sem listamanns hefði
söngkona á svipuðu reki og Steindór skilað betri trúverðugleika fyrir ekki
einungis heildarsvip plötunnar heldur sérstaklega þetta umrædda kvæði.
Heyrandi jafn unga konu syngja: Mér var aldrei lífið létt / lifði því með hraða getur
ekki talist trúverðugt þar sem kvæðið er augljóslega frásögn eldri manneskju.
Söngurinn er fallegur engu að síður.

Um tónlist sér Hilmar Örn Hilmarsson, kvikmyndatónskáld, eins og áður sagði.
Styrkur hans liggur í skynbragði á sögusviðum og framvindu, ómissandi
eiginleiki hjá góðu kvikmyndatónskáldi. Ég hafði þó vonast til að Hilmar og
Steindór myndu reyna að ýta tónrænni vitund landans á rímunni fram í
samtímann með einhverju öðru en hinum hefðbundna pedalpunkti, þar sem
bassanóta verksins helst óbreytt í gegn á meðan hljómar og laglína dansa þar
ofan á. Þetta tónmál er þó óneitanlega mjög hentugt til að skapa þjóðlegan stíl og
virkar ætíð. Pedalpunkturinn góði á sér því stað og stund á plötunni og má dæmi
nefna áhrifaríkt samspil tónlistar Hilmars við texta Stefáns frá Hvítadal í Haustið nálgast.

Í formála bókarinnar segir:
Undanfarið hefur Steindór tekið þátt í ýmsum verkefnum sem hafa haft það
að markmiði að færa rímurnar til fjöldans og oftar en ekki hefur hann sett
þær í nýstárlegan búning.

Óhætt er að segja að nýstárleiki hafi ekki verið markmiðið með Stafnbúa. Einnig
segir í sama texta:
Á sama tíma hefur honum [Steindóri] verið umhugað að gæta að hinu
upprunalega og einfalda formi rímunnar […].

Það markmið er mun nær lagi og hefði tekist svo gott sem fullkomlega ef ekki
væri fyrir Lóa Fiðurgisin undir lok plötunnar. Fram að því tekst vel til að búa til
heildarstemmingu tónlistarinnar sem einkennist annarsvegar af hægum
strengjakvartett og af glaðlegra gítarspili í bland við steinhörpu og langspil
hinsvegar, sem bæði gefa rímunni andrými. Stemming sú er brotin upp með
nokkuð árásargjarnri innkomu trommuheila sem getur ekki talist styðja við hið
einfalda. Ef Hilmar og Steindór vilja flytja rímur við taktvissa raftónlist væri það
mun frekar efni í aðra plötu frekar en eitt stakt lag hér.

Samantekt
Stafnbúi er mjög áhugaverður og eigulegur gripur og þar er að finna mikið af
fallegum kveðskap, flutningi og tónlist sem styður við þá stemmingu sem textinn
kallar á. Tónefnið er of einsleitt og einfalt til að vera áhugavert til lengri tíma,
sem gefur þó rímunum rými til að njóta sín. 3/5 stjörnur.

Helgi Rafn Ingvarsson
Kópavogur, 05.01.13.
Greinarhöfundur er tónskáld, kórstjórnandi, söngvari og kennari.

No comments: