Nýtt verkefni hefur litið dagsins ljós. Ég og vinur minn Jón Gunnar Biering (Shadow Parade) erum að vinna í því að koma frá okkur nokkrum lögum í prufutöku formi, sem þá vonandi þróast e-ð áfram. Eins og er, virðist stefnan vera tekin á elektrónískt alþýðupopp en það getur ennþá allt breyst.
Hljómkviða #1 gengur vel og fer ég með hana í prófarkarlesningu til Hróðmars Sigurbjörnssonar tónskálds í komandi viku og ætti maður þá að geta sett tvístrikið fræga fyrir aftan síðustu nótuna í nóvember, fyrir utan hreinskrif og annað dúll. Það kæmi mér svo sem ekkert á óvart ef maður væri að dúlla sér í því fram í janúar. Alveg sama hvað maður rennir oft yfir verk, það er alltaf hægt að finna e-ð til að slípa.
Mesti höfuðverkurinn núna er að ákvarða hvort og hvar eigi að fjölga hljóðfærum eða fækka til að ná sem bestu jafnvægi milli hljóðfærahópa.
Ég er búinn að vera að flakka á milli þess að hafa verkið bara einn kafla eða taka það alla leið og hafa þá þrjá. Í dag hallast ég að því að hafa það bara einn kafla í bili en ég get þá alltaf bætt við seinna hinum tveimur til að fullkomna söguna.
-1.kafli er frásögn Tinnu um hennar líðan í klóm Skuggablómanna (Arían "Drottning í húmi").
-Kafli 2 segði frá Skuggablómunum og hvernig þau vilja fá Tinnu endanlega inní myrkrið með því að krýna hana til drottningar í hirð sinni (Aríósan "Vesalings Tinna")
-Í kafla 3 stígur Hrafn inní söguna, hjálpar Tinnu að hjálpa sjálfri sér og Skuggablómin lúta í lægri hlut, allavega í bili (óákveðið tónefni, líklega dúett arían úr 2.þætti)
Fínt að taka eitt skref (kafla) í einu.
Talandi um hljómkviður: Beethoven er alltaf góður
http://www.youtube.com/watch?v=4uOxOgm5jQ4
http://www.youtube.com/watch?v=rRgXUFnfKIY